Smásaga – skrifuð í nóvember 2012

ÁRAMÓT

 Mér er kalt og vona að Ása komi fljótt til dyra svo ég þurfi ekki að skjálfa hérna lengi. Hún ljómar af gleði þegar hún kemur til dyra, eins og ég sé jólasveinninn. Hún er stórglæsileg í áramótadressinu sínu. Gullfalleg eins og venjulega. Annað en hrúgan ég, sem var tvo tíma að ákveða hvort ég ætti að fara í sturtu eða ekki, því það er ekki sturtudagur samkvæmt planinu.

„ Nei, er ekki hún Vala mín bara mætt“ segir Sindri með bros á vör þegar hann kemur innan úr eldhúsinu, með svuntu og áramótahatt, og réttir mér kampavínsglas um leið og hann kyssir mig á kinnina. Ég skála við hann og fæ mér dágóðan sopa af kampavíninu. Ása setur áramótahatt á hausinn á mér og skellir flautu í munnvikið. Ég blæs svo að upprúllaður pappírinn beinist þráðbeinn að nefi Ásu en það heyrist ekkert hljóð. Ég reyni aftur með meiri krafti og tekst að framkalla skerandi og óþolandi ýl, sem á eftir að einkenna kvöldið eftir því sem drykkirnir verða fleiri. Það er að minnsta kosti venjan, ásamt litlu partýsprengjunum með lituðu, pappírsstrimlunum, sem lita allt um leið og þeir komast í snertingu við bleytu. Það gerist vanalega líka eftir því sem drykkirnir verða fleiri.

Mér sýnist ég vera síðust til þess að mæta og fæ mér sæti í sófanum hjá hinum gestunum, sem eru vinir Sindra úr HR, þ.e.a.s. pöruðu vinirnir. Ása segir að það sé alveg hrikalega mikilvægt fyrir pör að eiga paravini. Ég hef svo sem ekki kynnt mér það mál frekar. Ég er varla sest í sófann þegar Sindri og Ása tilkynna að maturinn sé tilbúinn og bjóða okkur að setjast við borðið. Það sést varla í borðstofuborðið fyrir skreytingum en þau hafa þó tekið frá pláss fyrir sjö matardiska og tilheyrandi borðbúnað. Ég tek lítinn þátt í samræðunum við matarborðið en kinka kolli þegar mér finnst það viðeigandi. Ég einbeiti mér að því að drekkja þurrum kalkúninum í sósu og skola honum svo niður með rauðvíni. Ég hef ekki tölu á því hversu oft er skálað við matarborðið. Fyrir gamla árinu. Fyrir nýja árinu. Fyrir nýja húsinu. Fyrir vináttunni. Fyrir samverustundum. Fyrir rauðvíninu. Fyrir öllu mögulegu.

Eftir matinn troðum við okkur í sófann til þess að horfa á áramótaskaupið. Ég geri mitt besta til þess að drekka bjórinn minn á sama hraða og hlægja á sama tíma og þau. Nú eiga allir að vera glaðir. Áramót eru skemmtileg. Áramótapartý eru skemmtileg.

Ég næ engan veginn að einbeita mér að þessu blessaða skaupi og er þess í stað starsýnt á tímarit, sem liggur á gólfinu við hliðina á sófanum. Forsíðumyndin er af ungri, skollóttri konu. Hún er með ólæknandi krabbamein. Æxli, sem ekki hægt er að skera í burtu. Hún brosir. Hún er hetja. Því myndi enginn mótmæla.

Ég ranka við mér við mikil hlátrasköll og ég hlæ þeim til samlætis. Ég reyni að horfa á næsta atriði í skaupinu en augu mín og hugur beinast fljótt að forsíðumyndinni.  Ég öfunda konuna. Ég veit það er ógeðslegt að hugsa svona og að ég geri mér ekki grein fyrir hvaða þrautir hún hefur þurft að ganga í gegnum. Ef ég væri í hennar sporum myndi ég sennilega öfunda konu í mínum sporum.

Hún er hetja.

Hetja er sú sem þráir ekkert heitar en að lifa en neyðist til að horfast í augu við dauðann sem er nærri. En þeir sem þrá svo heitt að deyja en neyðast samt sem áður til að horfast í augu við lífið á hverjum degi eru aumingjar og hugleysingjar. Ekki satt?

Stundum finnst mér eins og ég sé með æxli, sem ég ræð ekkert við. Sem ég get ekki látið skera í burtu, ekki frekar en dauðvona hetjan.

Ætli dauðvona hetjunni hafi einhverntímann verið sagt að „hætta þessu bara!“. „Hugsa bara jákvætt og þá fer æxlið!“ .

„ Ertu ekki örugglega búin að ákveða áramótaheitið þitt?“ segir Ása um leið og hún lætur sig detta í sófann við hliðina á mér. Ég átta mig nú á því að skaupið er búið og ég sat ein eftir í sófanum þar til Ása kom.

„Jú auðvitað“ svara ég og reyni að hljóma eins spennt og hún virðist vera.

„ Ég keypti risastór stjörnuskip“ segir hún og skellihlær um leið að mismæli sínu, „vá ég meinti stjörnuljós maður“. Hún er orðin vel hífuð blessunin. Ég hlæ með henni og hugsa um hefðina okkar, sem við höfum haldið í síðan við vorum 12 ára að strengja okkar fyrstu áramótaheit og hétum því báðar að biðja Sindra sæta um að byrja með okkur á föstu og sjá svo bara til við hvora okkar hann segði já. Svo bætti Ása við mín heit að ég ætlaði að eignast fleiri „Beverly Hills 90210“ límmiða því ég átti svo fáa og tímdi þess vegna aldrei að bítta við neinn. Við skrifuðum heit hvorrar annarrar á himininn með stjörnuljósi og mér fannst um leið eins og við værum að framkvæma einhverskonar galdra, sem leiddu til þess að allt sem við óskuðum okkur á nýja árinu myndi rætast því það væri búið að skrifa það á himininn.

Ég held reyndar að við höfum aldrei staðið við nokkurt heit frekar en aðrir sem finnast hlutirnir hafa meiri merkingu ef þeir eru hátíðlega settir fram á þessu kvöldi. En þetta er hefð sem við eigum saman. Ég og hún.

„Jæja nú skulum við fara og sprengja þetta flykki“ tilkynnir Sindri yfir hópinn og heldur á risastórri flugeldatertu. Tillaga hans fær góðar undirtektir, sem eru gefnar til kynna með hrópum og ýlublástrum.

Við staulumst áfram upp að Skólavörðuholtinu, þar sem loftið er nú þegar orðið reykmettað og sprengjugleðin í hámarki. Sindri kveikir í tertunni og lítur svo stoltur á okkur, þegar hún byrjar að springa, eins og hann hafi unnið eitthvað afrek með því að kveikja í þræði sem búið var að koma fyrir í einu horni tertunnar. Ása hrópar af hrifningu og má ekki einu sinni vera að því að líta niður frá ljósadýrðinni þegar hún drekkur freyðivínið af stút. Ég læt mér nægja að vera með örlítið freyðivín í plastglasi.

„Jæja Vala, nú skulum við strengja heitin okkar“ segir Ása og réttir mér pakka af stjörnuljósum af stærstu gerð. „Ég ætla að hætta að borða sykur. Þetta er algjört ógeð og viðbjóðslega óhollt“ segir Ása um leið og hún kveikir á einu stjörnuljósi. Ég næ mér í eld af stjörnuljósinu hennar og um leið og ljósið mitt fer að loga segi ég við hana: „Ég ætla að vera hetja.“. Ása frussar út úr sér freyðivíninu, sem hún var nýbúin að hella upp í sig og fer að skellihlæja. „Shit hvað þú ert alltaf dramatísk Vala. Ég elska það!“

Hún beinir stjörnuljósinu sínu upp í loft og segir upphátt á meðan hún skrifar á himininn:

„V-A-L-A  V-E-R-Ð-U-R  H-E-T-J-A“.

Hallgrímskirkja reynir að tilkynna okkur að það sé komið miðnætti en það er líkt og bjöllur hennar hvísli í samanburði við læti flugeldanna og fólksins, sem virðist vart ráða sér af kæti yfir nýju ári.

Auglýsingar

Um Eydís Huld öll í skuld

Sandgerðingur, MA-ingur, lyfjafræðingur. Stefni að því að gera heiminn að betri stað en fyrst ætla ég að taka mér smá siestu;)
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Smásaga – skrifuð í nóvember 2012

  1. Sigrún sagði:

    Flott:D

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s