23.september

Í dag eru 2 ár síðan hjartagosinn okkar ákvað að enda líf sitt og tókst það.

Ég man að á sínum tíma þá ráðlagði presturinn okkur að gera frekar meira úr afmælisdeginum hans, deginum sem hann hóf lífið sitt, heldur en deginum sem því lauk. Ég skil vel rökin á bak við þau ráð því auðvitað eigum við að fagna lífinu hans.

En 23.september verður aldrei venjulegur dagur. Á þessum degi fékk ég símtal, kl. 11 á föstudagskvöldi frá Guðrúnu systur, þar sem hún sagði mér að Dagbjartur hafi reynt að hengja sig og að lífgunartilraunir hafi ekki enn borið árangur. Þau biðu öll fyrir utan húsið á meðan sjúkraflutningamenn, læknir og lögreglumenn athöfnuðu sig og hún myndi hringja í mig með nýjar fréttir. Ég man að mér fannst strax eins og ég væri að horfa á einhverja allt aðra manneskju en mig vera að taka á móti þessu símtali.

En stuttu eftir að ég skellti á var eins og allt blóðið í líkamanum mínum hafi skyndilega breyst í ískalt vatn, sem hreyfðist varla. Ég var með gesti, sem voru að gera sig klára til að fara og ég fylgdi þeim til dyra án þess að minnast á nokkuð. Þetta voru bestu vinkonur mínar en ég nefndi þetta ekki við þær né lét á neinu bera. Ég veit ekki af hverju ég gerði það. Sennilega því mér fannst þetta ekki vera að gerast í alvöru. Hugurinn var ekki búinn að meðtaka þessar fréttir.

En líkaminn virtist vera búinn að átta sig á þessu og jökulkalda vatnið var orðið að stingandi ísnálum og ég var komin með náladofa í hendur og fætur. Ég skalf úr kulda þegar ég fór á netið að bera saman malaríulyf til að nota í Asíuferðinni. Einhverra hluta vegna fannst mér þetta tilvalinn tími fyrir það verkefni. Þetta var nefnilega sko ekki að gerast. Ég spjallaði við Eygló á facebook um einhverja ómerkilega hluti. Allt í einu datt mér í hug að það væri nú kannski gott að biðja hana um að koma og bíða með mér eftir næsta símtali, þó það símtal myndi að sjálfsögðu bera með sér betri fréttir það fyrra. Annað kom ekki til greina.

Ég hugsaði líka að af því Guðrún hafði sagt að hann hafi „reynt“ að hengja sig að þá hafi það ekki tekist og hún myndi því hringja um leið og hann væri orðinn hress.  Ég þyrfti því sennilega ekkert að hafa áhyggjur. Smám saman áttaði ég mig á því að Guðrún hafði vitnað í orð lögreglunnar og sagt „ lífgunartilraunir hafa ekki enn borið árangur“……

Ég beið í 33 mínútur eftir næsta símtali en mér fannst það vera 3 klukkustundir. Ég áttaði mig auðvitað á því að því lengra sem leið – því minni væru líkurnar á að fréttirnar yrðu góðar. Þegar síminn svo loksins hringdi þá vildi ég ekki svara því ég vildi ekki fá þessa staðfestingu. Læknirinn var búinn að úrskurða litla 11 ára frænda minn látinn.

Ég vissi ekki hvort ég vildi sitja eða standa eða labba. Ég öskraði og barði í veggi og skápa. Mér fannst eins og hausinn á mér væri að springa og hjartað á mér væri að kremja lungun svo ég gat varla andað. Ég kúgaðist og kúgaðist og kastaði upp.

Þegar ég loksins róaðist, spurði Eygló hvort hún ætti ekki að keyra mig í Sandgerði. Ég skil ekki af hverju ég þáði það boð ekki heldur ákvað að keyra sjálf ásamt Sibbu systur, þrátt fyrir að vera ekki í nokkru ástandi til þess að keyra. Það var þögn í bílnum nánast alla Reykjanesbrautina. Það eina sem heyrðist í okkur öðru hvoru var „elsku kallinn“ , „elsku litli kallinn“.

Stóri bróðir minn sat þreyttur og dofinn inni í stofu þegar við komum. Ég settist við hliðina á honum og hélt í höndina á honum á meðan hann rakti fyrir okkur atburðarás kvöldsins. Það láku mörg tár á meðan ég hlustaði á það hvernig hann reyndi að koma lífi aftur í kroppinn á litla stráknum sínum. En mér fannst þetta samt ennþá ekki vera að gerast.

Ég get ekki ímyndað mér að 23.september eigi nokkurntímann eftir að verða venjulegur dagur. Þetta er dagurinn sem litli hjartagosinn okkar gerði stór mistök. Mistök sem var ekki hægt að taka til baka.

dha

Auglýsingar

Um Eydís Huld öll í skuld

Sandgerðingur, MA-ingur, lyfjafræðingur. Stefni að því að gera heiminn að betri stað en fyrst ætla ég að taka mér smá siestu;)
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.

9var við 23.september

 1. Guðrún sagði:

  Erfiðustu símtöl ævinnar að þurfa að hringja í ykkur og geta ekki bara sagt að þetta myndi allt lagast, heyri ennþá það sem okkur fór á milli þetta kvöld þegar ég hugsa um þetta skelfilega kvöld, kvöldið sem fer ekki úr huganum og èg vil aldrei upplifa aftur…… Þykir óendanlega vænt um þig og vildi að ég gæti knúsað þig núna litla sys 🙂

 2. Guðný sagði:

  Úff skil að þessi dagur verður aldrei venjulegur. Það féllu tár við þennan lestur og ég samhryggist þér innilega elsku Eydís mín. Knús frá DK.

 3. Sibba sys sagði:

  Þetta er því miður kvöld sem mun aldrei gleymast. Þú lýsir þessu svo vel. Undarlegt að finna hvernig tilfinningar og rökhugsun fara í sitthvora áttina og tilfinningarnar taka yfir. Man hvað mér var ógeðslega kalt en svitnaði og svitnaði á sama tíma. Vil helst ekki upplifa svona aftur. Knús á þig og sjáumst eftir nokkra daga

 4. Eygló sagði:

  Úfff þetta rifjar upp sárar minningar, þetta er dagur sem ég mun heldur aldrei gleyma. Það var virkilega erfitt að horfa uppá bestu vinkonu sína ganga í gegnum helvíti á jörðu og geta lítið gert til að láta henni líða betur. Love you :*

 5. Sirrý sagði:

  Eins og ávallt kanntu að koma orðum að hlutunum. Það féllu tár við þennan lestur. Ég sendi þér mínar bestu kveðjur og knús og vona að gæfan fylgi þér , þar sem þú átt nú svona fallegan engil til að líta til með þér.

 6. María sagði:

  Innilegar samúðarkveðjur, var átakalegt að lesa þetta. Knús mín kæra.

 7. Sigrún sagði:

  Þú er ótrúlega flott að segja frá þessari upplifun, það komu líka nokkur tár frá mér. Hlakka ótrúlega mikið til að knúsa þig eftir 25 daga:) sendi þér risa stórt „hugsa til þín knús“!!!!! :*

 8. konný sagði:

  Knús til þín elskan mín. Minning Dagbjarts lifir ❤

 9. Heiður sagði:

  Mikið sem þetta var erfiður lestur og ég gat ekki haldið aftur af tárunum, til hvers? Þessi skelfilegi atburður gleymist aldrei en minning um fallegan dreng lifir. Innilegar kveðjur til þín elsku vinkona!!!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s