Pikköplínur 2012 – Ársskýrsla

Rannsókn þessi var unnin með aðstoð fjögurra manna einhleypingateymisins, sem ég tilheyri, og flestra álitlegra karlmanna sem á vegi mínum urðu í miðbæ Reykjavíkur á tímabilinu 1.6.2012 – 31.12.2012.

Tilgangur: Að hanna og prófa pikköplínur fyrir kvenmenn á aldrinum 28 – 38 ára, sem einhverra hluta vegna náðu ekki að hoppa upp í makalestina (eða náðu henni en fengu bara ekki nógu góð sæti) á þeim tíma sem eðlilegt og óvandræðalegt þótti að vera einhleypar og bíða sætar og stilltar eftir að vera boðið sæti í lestinni.

Markmið: Að sýna fram á að karlmenn séu ekki þeir einu sem geta boðið upp á sæti í makalestinni. Eftir vissan tíma þykir það skiljanlegt að konan taki málin í sínar hendur, enda hafi ekki borið tilskyldan árangur að sitja sæt og flissandi til að laða að sér ásættanlegan sessunaut í þessari vinsælustu lest lífsins.

Efni og aðföng: Bjór, hvítvín, G&T, lukkuhjólið á English Pub, Ölstofan og Ellefan.

Niðurstöður:

1. Hellir „óvart“ bjór á viðkomandi og segir svo:

„ÆÆÆ fyrirgefðu!! Viltu ekki bara koma heim með mér og við stingum fötunum þínum í þvottavélina mína? „

ATH: Menn eru almennt ekki ánægðir með þessa línu. Hún virkar t.d. alls ekki á menn í jakkafötum því þau þurfa víst að fara í hreinsun eftir bjórbað. Úbbs :/ eiga bara allir að vita það??

Skulið sleppa þessari! ….enda sóun á góðum bjór.

2.Heyrðu ég er í pínu vandræðum og ég var að spá hvort þú gætir kannski hjálpað mér. Ég seldi rúmið mitt áðan. Er nokkuð pláss í þínu?“

ATH: Þessi er nokkuð pottþétt. Hafðu þó í huga að líkur eru á að viðkomandi geri ráð fyrir því að þú sért að bjóða upp á kynlíf. Slíkt virðist vera orðið að forgangsverkefni klukkan 3 á nóttunni í miðbænum. Ótrúlegt!

3.Hæ ég heiti Eydís og er frænka þín! Gefðu frænku nú knús!!……(að knúsi og káfi loknu)…..úbbs fyrirgefðu er ég að fara mannavillt? Heitir þú ekki Klemens?“

ATH: Skv. Hagstofunni eru aðeins 17 menn á landinu sem bera nafnið Klemens svo það verður að teljast nokkuð ólíklegt að þú sért að fara að hitta á einn þeirra í miðbæ Reykjavíkur og falla á eigin bragði.  Þetta er góð leið til að brjóta ísinn og finna hvort viðkomandi er í sæmilegu formi.

4. Taktu nett Wham-dansspor og syngdu:   „Pick me up before you go go !“

ATH: Ekki búast við að geta púllað þessa línu fyrr en eftir a.m.k. 5 G&T. Þessi lína virkar ef viðkomandi sér þig halda á sjötta G&T glasinu og dragi af því ákveðnar ályktanir….sjá athugasemd við lið 2.

5.Ertu nokkuð frá Bolungarvík?“

ATH: Það er merkilegt hvað þessi lína virkar oft!!! Hafðu þó í huga að þú þarft að geta fylgt þessari línu eftir með áhugaverðum samræðum. Ef þú ert týpan sem skorar hærra þegar kemur að útlitinu en persónuleika þá skaltu ekkert vera að prófa þessa línu. Stundum er bara best að þegja, setja á sig gloss og mynda „gæsa-varir“. Alltaf að spila út hæsta trompinu!

6.Vissirðu að smokkarnir með jarðaberjabragðinu eru loksins komnir í stærð XXL?  Æ ég mundi bara allt í einu eftir því þegar ég sá þig!“

ATH: Hér munu allir karlmenn brosa eða hlægja vandræðalega á meðan þeir vona innst inni að jólasveinninn muni gefa þeim einn slíkan pakka. Vandinn er þó sá að þessi lína virkar best á þá sem hættu að trúa á jólasveininn fyrir ekki mikið meira en 10 árum síðan.

7. Límdu pakkaskraut á ennið á þér og þegar álitlegur karlmaður biður þig um skýringar skaltu blaka augnlokum blítt og syngja:

„Jólagjöfin mín í ár, ekki metin er til fjár………jólagjöfin er ég.“

ATH: Þessa geturðu auðvitað bara notað ef þú syngur vel. Þú vilt ekki að hann haldi að þú sért fáviti.

8.Langar þig að opna glugga númer 2 í jóladagatalinu mínu?“

ATH: Hér færðu strax að vita hvort viðkomandi þykir súkkulaði gott eða ekki og þ.a.l. hvort þið eigið samleið eða ekki. Fljótlegt og áhrifaríkt. Hentar öllum.

9.Hæ, ég er með egglos! Hvað er að gerast hjá þér þessa dagana?“

ATH: Stundum er best að koma sér bara beint að efninu. Sérstaklega þar sem tikk-takk hljóðið verður bara háværara og skærara með aldrinum.

10: Leiði lína númer 9 til arðvænlegra samræðna, má koma þeim samræðum á næsta stig með því að segja:

Veistu að með egginu mínu og pylsunni þinni erum við komin langleiðina með að búa til enskan morgunverð saman?“ 

ATH: Hér gætir þú mögulega verið komin með sessunaut þinn í makalestinni, a.m.k. fram að næstu stoppistöð. Hafðu þó í huga að það er einstaklega ógirnilegt og stríðir gegn fjölda reglna heilbrigðiseftirlitsins að steikja egg og pylsur inni á klósettum skemmtistaða!!

Samantekt:

Svo virðist sem línur númer 3 og 5 séu langáhrifaríkastar, sem kom rannsóknarmanni nokkuð á óvart vegna einfaldleika þeirra. Eftir á að hyggja kemur þetta þó heim og saman við þá kenningu einhleypingateymisins um að við séum almennt að gefa karlmönnum of mikið kredit og verðum því sífellt að minna okkur á einfeldni þeirra. Fyrir þeim er ein setning bara ein setning en ekki 57 aðrir möguleikar sem setningin gæti verið að túlka og verið tilefni til þriggja klukkutíma umræðna á sunnudagsrúntinum. Það er spurning um að tileinka sér þennan hugsunarhátt á árinu 2013.  Þó ber að hafa í huga að það er ekki á allra valdi að nota línur 3 og 5 því eins og áður sagði þá leiða þessar línur yfirleitt til áframhaldandi samræðna. Slepptu því þessum línum ef þú ert einfaldlega meira fyrir augað en eyrað!

Línur eins og í lið 1, sem felast í því að skemma eigur annarra, virka ekki!!      Hvað varstu eiginlega að hugsa?? Þessi lína lenti því miður í þessari könnun af algjöru gáleysi og miðaði engan veginn við fyrri reynslu rannsóknarmanns af línum af þessu tagi. Ef þú rífur skyrtuna utan af manni (tölur poppandi í allar áttir) á miðju dansgólfi á skemmtistað í Osló, mun sá maður snúa sér við og rífa efri hlutann á kjólnum þínum!  Considered yourself warned!

Meðlimir einhleypingateymisins eru enn á þeirri skoðun að línur 9 og 10 bjóði upp á mikla möguleika. Því verður tilraunum með þessar línur haldið áfram á nýju ári þrátt fyrir að við gerð þessarar rannsóknar hafi menn skyndilega þurft að fara á klósettið og aldrei komið aftur eða látið sig detta í gólfið af hlátri um leið og línan hafði verið lögð fram. En hví á svona hreinskilni ekki við í þessum efnum eins og á öðrum sviðum í lífinu??  Það er þörf á hugarfarsbreytingu í samfélaginu! Annað verkefni fyrir árið 2013.

Ást og friður,

Eydís Huld

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Auglýsingar

Um Eydís Huld öll í skuld

Sandgerðingur, MA-ingur, lyfjafræðingur. Stefni að því að gera heiminn að betri stað en fyrst ætla ég að taka mér smá siestu;)
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Pikköplínur 2012 – Ársskýrsla

  1. Bakvísun: Nýr markaður – ný rannsókn ? | Eydís Huld öll í skuld

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s