Æ hættum nú að gleypa alla þessa froðu!

Internetið er frábært fyrirbæri. Fullt af fróðleik og froðu!

En vitiði stundum bara liggur við að ég froðufelli í leit minni að fróðleik og jafnvel þó ég hafi ekki einu sinni verð að leita að honum.  Oftast rekst ég á þessar glimrandi fínu froður þegar ég er í sakleysi mínu að njósna um/eltihrella fólk á facebook eða öðrum eins síðum sem gegna lykilhlutverli í mínu lífi. Þá rekst maður á svona linka !

Sítróna og matarsódi – 10 000 áhrifameiri en lyfjameðferð við krabbameini?

Einnig sá ég linka á að mig minnir tvær greinar í viðbót þar sem akkúrat þessi blanda átti að vera allra meina bót og koma jafnvægi á líkamann en ég finn þær því miður ekki aftur og man ekki heldur hver það var sem var að deila þeim, en það er nú svo sem aukaatriði.

Nú er alls ekki meiningin að vera leiðinleg en það er bara svo erfitt að vera gagnrýnin á upplýsingar sem koma flæðandi að manni í gengum internetið svo í flestum tilfellum nenni ég bara ekki að pæla í því. En þetta fangaði hins vegar athygli mína því ég var ekki alveg að fatta efnafræðina á bak við þetta undur.

Þarna er :  Súr vökvi + basísk duft  =  „?læknandi dúndur?“ .

En nú lærum við í efnafræði 103 að:

Sýra + basi =  hlutlaus lausn  (að því gefnu að sýran og basinn séu jafngild).

Af hverju gerist það þá ekki í þessu tilfelli?

Er kannski matarsódi basi sem getur af einhverjum ástæðum ekki hlutleyst sýru?   Neibb hann getur það sko víst! Hann var einmitt mikið notaður áður fyrr við brjóstsviða, þar sem hann hlutleysir magasýrurnar. Nákvæmlega sama efnafræði sem á sér stað þegar við tyggjum brjóstsviðatöflur!

Sítrónusafi inniheldur 95% sítrónusýru (e. citric acid).  Efnahvarf hennar við matarsóda (Natríumbíkarbónat) og vatn er eftirfarandi (óstöðugum millistigum sleppt):

3NaHCO3 + C6H8O7 + H2O   3Na₊  + C6H5O73- + 4H2O + 3CO2

                                                 s.s.

Natríumbíkarbónat+Sítrónusýra+VatnNatríum jón+Sítrónusýru jón+Vatn+Koldíoxíð

Þetta er það sem á sér stað í vatnsglasinu þegar við bætum sítrónusafa og matarsóda útí. Nýju afurðirnar eru vatn og koldíoxíð!

Til hamingu!! Þú hefur búið þér til kolsýrt vatn 🙂 ……með sítrónubragði 😉

Hugsa að það verði nú samt einhver bið á því að Ölgerðin setji ábendingu við krabbameini á Kristal …..þó hann sé með sítrónubragði 😉

Auglýsingar
| Ein athugasemd

Morgunmatar múffur :)

Aldrei í lífinu hélt ég að ég myndi vera spurð um uppskrift af einhverju en allt getur nú gerst 😉   Þá er nú við hæfi það séu uppskriftir sem eru sprottnar upp vegna leti minnar í eldhúsinu og þeirrar staðreyndar að mér virðist lífsins ómögulegt að vakna fyrr en 5 mínútum fyrir brottför útúr húsi 😉

Ég á nú ekki heiðurinn af þessum uppskriftum/hugmyndum heldur er þetta eitthvað sem ég hef fundið á netinu og e.t.v. breytt eitthvað aðeins til að henta mér.

Hafra/banana múffur

200 g hafrar

2-3 vel þroskaðir bananir (maukaðir eiga þeir að vega ca. 300 grömm)

1/2 tsk. salt

Slatti Stevia ( held ég hafi sett 3-4 sprautur af fljótandi Stevia sem ég keypti í Nettó)

300 g vatn

25 g olía

1,5 tsk vanillu ekstrakt

Svo hef ég tekið tvo lófafylli af möndlum og barið gróflega. Mér finnst gott að hafa möndlubitana frekar stóra.

Bakast í ca. 20 mín við 180 gráður.  Muna að smyrja formin vel!!

Eggja múffur

4 egg

4 eggjahvítur

smá mjólk

ca. 50 g grænkál eða annað dökkgrænt grænmeti

1/3 laukur eða ein gulrót eða papriku….. eða bara það sem manni finnst gott. Setti einu sinni afgangs skinku sem ég átti inni í ísskáp.

Rifinn ostur

Eggjum og mjólk blandað saman eins og þegar maður gerir venjuleg hrærð egg. Mér finnst rosa gott að setja smá pipar og hvítlauksduft saman við.

Steikja grænmeti á pönnu til að taka úr því mesta vatnið og mýkja það.  Hálffylla múffuformin með grænmetinu og hella svo eggjahrærunni yfir. Setja nokkrar strimla af rifnum osti efst.

Muna að spyrja múffuformin VEL áður og ekki fylla þau alveg að brúninni því múffurnar lyftast pínu í ofninum.

10-12 mínútur við 180 gráður.

Þetta geymist vel í frystinum og fínt að grípa með ef maður hefur ekki tíma til að borða morgunmat heima ( sem er næstum alltaf í mínu tilfelli 😉 ). Skelli þessu svo í örbylgjuofninn og gæði mér á þessu góðgæti áður en ég opna búlluna. Finnst reyndar fínt að maula á haframúffunum með síðdegiskaffinu líka 😉

| Færðu inn athugasemd

Ástarleit í Osló – 1.kafli

Í Oslóarborg bjó eitt sinn ung stúlka, já ok eða ung kona.  Við skulum bara kalla hana Dísu. Dísa og vinkonur hennar neita að gefast upp í leitinni að ástinni og leita hennar hverja einustu helgi, fullar af von og áfengi.

Eitt kvöldið bar leitin meiri árangur en önnur kvöld. Dísa hóf samræður við ungan mann á ónefndum skemmtistað og fljótlega lá leiðin út á götur miðbæjarins, þar sem í ljós kom að kauði hafði allan tímann verið að tala ensku á meðan Dísa talaði norsku…..úbbs pínu hávaði á svona skemmtistöðum sjáiði til. Hann reyndist vera frá Kosovo og var í heimsókn hjá vini sínum í Noregi.  Þetta vakti áhuga Dísu, þar sem hún hafði aldrei fiskað svona austarlega í Evrópu, svo kauða var boðið heim þegar leið undir morgun….til að drekka 1-2 tebolla.

Morguninn eftir og nokkrum tebollum síðar, runnu hins vegar tvær grímur á Dísu litlu þegar hún áttaði sig á því að enskukunnátta Hr. Kosovo var kannski ekki alveg eins glimrandi og hún virtist vera kvöldið áður. Eiginlega var bara rosalega erfitt að skilja hann á köflum. Svo virtist sem Hr. Kosovo líkaði tebollinn afar vel og var æstur í að fá símanúmerið hjá Dísu og verða vinur hennar á facebook.  Jújú það hljómaði nú nokkuð saklaust.

Þegar Dísa svo vaknaði af fegurðarblundinum seinna um daginn var Hr. Kosovo búin að læka 21 prófæl mynd af henni á facebook, sem voru einu myndirnar sem hann hafði aðgang að, þar sem vinabeiðni hans hafði ekki enn verið samþykkt.

Uhhh WTF??? Það var ekki einu sinni boðið upp á mjólk og sykur með þessum tebollum!!

Hrynja nú inn skilaboð á facebook, sms og hringingar því Hr. Kosovo er æstur í að hittast í einn kaffibolla. Í kvöld? Núna? Annað kvöld? Er nóg að hringja einu sinni?? Nei hringjum ca. 15 sinnum þar til Dísa loksins svarar og samþykkir að hitta hann á þriðjudagskvöldi. „Burtu með fordóma“ er nú einu sinni nýjasta æðið og það eru jú ekki allir eins heppnir og Dísa að hafa hlotið fyrsta flokks enskumenntun af amerísku sjónvarpi.

Hr. Kosovo birtist svo með búnkt af rauðum rósum og er augljóslega yfir sig ánægður með þessa gjöf til Dísu, sem hann segir vera beint frá hjarta hans. 90 sekúndum seinna er líkt og glorsoltinn gullfiskur í leit að æti hafi ráðist á munn/andlit Dísu. Guð minn góður hvað var að gerast? Hvernig kemur maður sér út úr þessu??

Dísa tilkynnir kauða að það komi ekki til mála að hann fái fleiri tebolla. Hann skilur ekkert í því enda líkaði honum augljóslega fyrrum bollar og gerði greinilega ráð fyrir að tebollarnir hefðu verið þeir bestu sem Dísa hafði nokkurn tímann drukkið. …….ó svo langt frá því!!…..en til að særa manninn ekki sagði Dísa bara að hún hefði ekki lyst á tei í kvöld.

Hr.Kosovo hefur greinilega aldrei heyrt aðra eins vitleysu og virðist ansi ráðvilltur í dágóða stund þar til allt í einu er eins og ljós kvikni og hann segir feginn: „ahhhh ok I know why. Ok. I know. I know.“

Dísa: „You do?“

Hr.Kosovo: „Yes yes! It is ahhhh……(nú myndar hann hring með vísifingri og þumli vinstri handar og í gegnum hringinn fer svo vísifingur hægri handar……já!! „táknmálið“ fyrir að drekka tebolla!!).  “ Ahhh I don´t know how to say in english but ahhh…..is red!“

Jebb!! Augljóslega eina mögulega ástæðan fyrir litlum teþorsta Dísu. Hún er á túr kellan!!!

Ó Jesús ef það bara væri einhver möguleg leið til þess að spóla til baka og  þurrka út þessa einlægu túlkun á hinu mánaðarlega kraftaverki. Það væri bara betra fyrir alla.

Blessunarlega nær Dísa að slíta sig lausa og segist bara vilja tala frekar svolítið saman. Þá kemur í ljós að Hr. Kosovo elskar Ísland! Hefur aldrei komið þangað en er búinn að skoða myndir á netinu og vill endilega fara þangað. Svo væri auðvitað frábært ef Dísa gæti komið í heimsókn til Kosovo og hitt foreldra hans.

???hahaha???

Nú hringir vinkona Dísu á umsömdum tíma til þess útvega henni flóttaleið ef ske kynni að stefnumótið væri að fara á þá leið sem búist var við. Dísa segist „því miður“ þurfa að fara heim til vinkonu sinnar að hjálpa henni með skattaskýrsluna.

Þá verður Hr. Kosovo heldur alvarlegri og segist vera með annan óvæntan glaðning (e. But I have other surprise for you!). Fyrsti glaðningurinn voru s.s. rósirnar.

„Nú hvað er það?“ spyr Dísa.

“ Ég held að það myndi vera frábært ef við myndum búa saman!“

HAAAA???!!!???

„Mér finnst að við ættum að búa saman!“ segir hann og horfir á Dísu eins og hann sé að gá hvort hún skilji núna hvað hann er að segja eða hvort hann eigi að vanda sig betur með enskuna sína.  (e. I think it will be great if I move in with you).

„Ertu að djóka???“

Hr. Kosovo er sko langt frá því að vera að djóka,  leggur hendur á hné og horfir beint í augu Dísu á meðan hann spyr hvort Dísa sé tilbúin í þetta ( e. Are you ready for this? )

„NEI!!“

„Af hverju ekki?“

„Ég þekki þig ekki neitt!“

„Nei ekki núna“ segir Hr.Kosovo og lætur eins og hann sé hneykslaður að Dísa hafi haldið að þetta ætti að gerast núna.

„Kannski í næstu viku“ bætir hann þá við.

Ok er fokking falin myndavél hérna einhversstaðar??? hugsar Dísa um leið og hún bendir Hr. Kosovo á að hann þekki hana nú ekki neitt.

“ En mér finnst þú fín stelpa (e. but I think you nice girl)“

Dísa: „Af hverju myndirðu vilja búa með einhverjum sem þú þekkir ekki neitt?

Hr. Kosovo: „Ég þekki þig betur í næstu viku ( e. I know you better next week maybe)“

Dísa: „Nei mér finnst það ólíklegt! Af hverju í veröldinni myndirðu vilja búa með einhverjum sem þú þekkir nánast ekki neitt?“

Hr.Kosovo: „But you are nice girl!“

Dísa: „Ok ég veit ekki hvort það er svona stór menningarmunur á milli Kosovo og Íslands/Noregs en hér flytjum við ekki inn með fólki nema að sambandið sé orðið alvarlegt og stefni jafnvel að því að giftast.“                      …….ok smá ýkjur kannski en alveg svakalega mikið í takt við þetta samtal.

Í ljós kom að Hr. Kosovo dreymdi um að flytjast til Noregs en fær ekki dvalarleyfi nema vera með húsnæði og vinnu. Vinur hans býr með norskri stelpu og það gengur fínt!! Í Kosovo fær hann bara 380 evrur á mánuði og þarf að mæta í vinnu á hverjum degi klukkan 8.             „Every day!“      „That is how life is in Kosovo you know!“

Æ greyið!

Vinkona Dísu bjargaði henni núna með þriðja „pirrings/heimtu“ símtalinu en Hr. Kosovo vildi nú ekki fara án þess að hitta vinkonu hennar, þar sem hann bjóst sennilega við að hún  yrði nú stór partur af framtíð hans.

Kveðja Hr. Kosovo þetta kvöldið var sko eitthvað sem rómantísk skáld nútímans ættu að taka sér til fyrirmyndar. Þegar hann er að ganga út um dyrnar snýr hann sér að Dísu og segir: „So when you finish….ahhh….(hann veit enn ekki hvað hann á að segja á ensku og í stað þess að mynda hring með fingrum líkt og fyrr um kvöldið þá notar hann aðra hendina til þess að …..hvernig er best að lýsa þessu???….. virkja kraftmikinn foss á mill læranna á sér??!!)

Dísa: “ ???“

Hr. Kosovo: „When you start?  Today? Yesterday?“

Dísa: „???? ahhhh sure…..“

Hr. Kosovo tekur sér nokkrar sekúndur til að reikna í huganum og segir svo glaður:

„Ok so I come on tuesday then??!!!“

???????????????????????????????????????????????????????????????????????

…………..Þessi maður var unfriendaður og blokkaður á facebook!………………….

En það stöðvaði hann ekki!

„Take a hint“ er greinilega ekki í eðli Hr. Kosovo!

Næstu vikurnar rignir inn skilaboðum og símhringingum sem ekki var svarað.  Á hverjum degi. Oft á dag.   Við sjáum dæmi:

What´s a saddlebag??

 

 

Take a hint??

 

 

 

 

 

 

Seriously???

 

 

 

 

 

 

???????????

Ástin krakkar…… Ástin!!

 

| 3 athugasemdir

Smásaga – skrifuð í nóvember 2012

ÁRAMÓT

 Mér er kalt og vona að Ása komi fljótt til dyra svo ég þurfi ekki að skjálfa hérna lengi. Hún ljómar af gleði þegar hún kemur til dyra, eins og ég sé jólasveinninn. Hún er stórglæsileg í áramótadressinu sínu. Gullfalleg eins og venjulega. Annað en hrúgan ég, sem var tvo tíma að ákveða hvort ég ætti að fara í sturtu eða ekki, því það er ekki sturtudagur samkvæmt planinu.

„ Nei, er ekki hún Vala mín bara mætt“ segir Sindri með bros á vör þegar hann kemur innan úr eldhúsinu, með svuntu og áramótahatt, og réttir mér kampavínsglas um leið og hann kyssir mig á kinnina. Ég skála við hann og fæ mér dágóðan sopa af kampavíninu. Ása setur áramótahatt á hausinn á mér og skellir flautu í munnvikið. Ég blæs svo að upprúllaður pappírinn beinist þráðbeinn að nefi Ásu en það heyrist ekkert hljóð. Ég reyni aftur með meiri krafti og tekst að framkalla skerandi og óþolandi ýl, sem á eftir að einkenna kvöldið eftir því sem drykkirnir verða fleiri. Það er að minnsta kosti venjan, ásamt litlu partýsprengjunum með lituðu, pappírsstrimlunum, sem lita allt um leið og þeir komast í snertingu við bleytu. Það gerist vanalega líka eftir því sem drykkirnir verða fleiri.

Mér sýnist ég vera síðust til þess að mæta og fæ mér sæti í sófanum hjá hinum gestunum, sem eru vinir Sindra úr HR, þ.e.a.s. pöruðu vinirnir. Ása segir að það sé alveg hrikalega mikilvægt fyrir pör að eiga paravini. Ég hef svo sem ekki kynnt mér það mál frekar. Ég er varla sest í sófann þegar Sindri og Ása tilkynna að maturinn sé tilbúinn og bjóða okkur að setjast við borðið. Það sést varla í borðstofuborðið fyrir skreytingum en þau hafa þó tekið frá pláss fyrir sjö matardiska og tilheyrandi borðbúnað. Ég tek lítinn þátt í samræðunum við matarborðið en kinka kolli þegar mér finnst það viðeigandi. Ég einbeiti mér að því að drekkja þurrum kalkúninum í sósu og skola honum svo niður með rauðvíni. Ég hef ekki tölu á því hversu oft er skálað við matarborðið. Fyrir gamla árinu. Fyrir nýja árinu. Fyrir nýja húsinu. Fyrir vináttunni. Fyrir samverustundum. Fyrir rauðvíninu. Fyrir öllu mögulegu.

Eftir matinn troðum við okkur í sófann til þess að horfa á áramótaskaupið. Ég geri mitt besta til þess að drekka bjórinn minn á sama hraða og hlægja á sama tíma og þau. Nú eiga allir að vera glaðir. Áramót eru skemmtileg. Áramótapartý eru skemmtileg.

Ég næ engan veginn að einbeita mér að þessu blessaða skaupi og er þess í stað starsýnt á tímarit, sem liggur á gólfinu við hliðina á sófanum. Forsíðumyndin er af ungri, skollóttri konu. Hún er með ólæknandi krabbamein. Æxli, sem ekki hægt er að skera í burtu. Hún brosir. Hún er hetja. Því myndi enginn mótmæla.

Ég ranka við mér við mikil hlátrasköll og ég hlæ þeim til samlætis. Ég reyni að horfa á næsta atriði í skaupinu en augu mín og hugur beinast fljótt að forsíðumyndinni.  Ég öfunda konuna. Ég veit það er ógeðslegt að hugsa svona og að ég geri mér ekki grein fyrir hvaða þrautir hún hefur þurft að ganga í gegnum. Ef ég væri í hennar sporum myndi ég sennilega öfunda konu í mínum sporum.

Hún er hetja.

Hetja er sú sem þráir ekkert heitar en að lifa en neyðist til að horfast í augu við dauðann sem er nærri. En þeir sem þrá svo heitt að deyja en neyðast samt sem áður til að horfast í augu við lífið á hverjum degi eru aumingjar og hugleysingjar. Ekki satt?

Stundum finnst mér eins og ég sé með æxli, sem ég ræð ekkert við. Sem ég get ekki látið skera í burtu, ekki frekar en dauðvona hetjan.

Ætli dauðvona hetjunni hafi einhverntímann verið sagt að „hætta þessu bara!“. „Hugsa bara jákvætt og þá fer æxlið!“ .

„ Ertu ekki örugglega búin að ákveða áramótaheitið þitt?“ segir Ása um leið og hún lætur sig detta í sófann við hliðina á mér. Ég átta mig nú á því að skaupið er búið og ég sat ein eftir í sófanum þar til Ása kom.

„Jú auðvitað“ svara ég og reyni að hljóma eins spennt og hún virðist vera.

„ Ég keypti risastór stjörnuskip“ segir hún og skellihlær um leið að mismæli sínu, „vá ég meinti stjörnuljós maður“. Hún er orðin vel hífuð blessunin. Ég hlæ með henni og hugsa um hefðina okkar, sem við höfum haldið í síðan við vorum 12 ára að strengja okkar fyrstu áramótaheit og hétum því báðar að biðja Sindra sæta um að byrja með okkur á föstu og sjá svo bara til við hvora okkar hann segði já. Svo bætti Ása við mín heit að ég ætlaði að eignast fleiri „Beverly Hills 90210“ límmiða því ég átti svo fáa og tímdi þess vegna aldrei að bítta við neinn. Við skrifuðum heit hvorrar annarrar á himininn með stjörnuljósi og mér fannst um leið eins og við værum að framkvæma einhverskonar galdra, sem leiddu til þess að allt sem við óskuðum okkur á nýja árinu myndi rætast því það væri búið að skrifa það á himininn.

Ég held reyndar að við höfum aldrei staðið við nokkurt heit frekar en aðrir sem finnast hlutirnir hafa meiri merkingu ef þeir eru hátíðlega settir fram á þessu kvöldi. En þetta er hefð sem við eigum saman. Ég og hún.

„Jæja nú skulum við fara og sprengja þetta flykki“ tilkynnir Sindri yfir hópinn og heldur á risastórri flugeldatertu. Tillaga hans fær góðar undirtektir, sem eru gefnar til kynna með hrópum og ýlublástrum.

Við staulumst áfram upp að Skólavörðuholtinu, þar sem loftið er nú þegar orðið reykmettað og sprengjugleðin í hámarki. Sindri kveikir í tertunni og lítur svo stoltur á okkur, þegar hún byrjar að springa, eins og hann hafi unnið eitthvað afrek með því að kveikja í þræði sem búið var að koma fyrir í einu horni tertunnar. Ása hrópar af hrifningu og má ekki einu sinni vera að því að líta niður frá ljósadýrðinni þegar hún drekkur freyðivínið af stút. Ég læt mér nægja að vera með örlítið freyðivín í plastglasi.

„Jæja Vala, nú skulum við strengja heitin okkar“ segir Ása og réttir mér pakka af stjörnuljósum af stærstu gerð. „Ég ætla að hætta að borða sykur. Þetta er algjört ógeð og viðbjóðslega óhollt“ segir Ása um leið og hún kveikir á einu stjörnuljósi. Ég næ mér í eld af stjörnuljósinu hennar og um leið og ljósið mitt fer að loga segi ég við hana: „Ég ætla að vera hetja.“. Ása frussar út úr sér freyðivíninu, sem hún var nýbúin að hella upp í sig og fer að skellihlæja. „Shit hvað þú ert alltaf dramatísk Vala. Ég elska það!“

Hún beinir stjörnuljósinu sínu upp í loft og segir upphátt á meðan hún skrifar á himininn:

„V-A-L-A  V-E-R-Ð-U-R  H-E-T-J-A“.

Hallgrímskirkja reynir að tilkynna okkur að það sé komið miðnætti en það er líkt og bjöllur hennar hvísli í samanburði við læti flugeldanna og fólksins, sem virðist vart ráða sér af kæti yfir nýju ári.

| Ein athugasemd

Nýr markaður – ný rannsókn ?

Undanfarnar vikur hef ég fundið fyrir gamalkunnum fiðringi og velt því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að hefja störf á ný sem vísindamaður í þágu einhleypra aumingja. Í fyrra gerði ég vísindalega könnun á því hvaða pikköplínur virka best og verst í miðbæ Reykjavíkur. Skýrslan var birt hér: https://eydish.wordpress.com/2013/01/15/pikkoplinur-2012-arsskyrsla/

Ýmsar spurningar eru nú lofti vegna flutnings vísindamannsins á nýjan markað, Osló:

Er þörf á nýrri rannsókn á nýjum markaði?

Munu sömu pikköplínur hafa önnur áhrif á hið nýja þýði?

Eða er þörf á nýjum línum fyrir norska markaðinn, sem sýna fram á afgerandi yfirburði íslenska stofnsins?

Hvað finnst þér?

| 3 athugasemdir

23.september

Í dag eru 2 ár síðan hjartagosinn okkar ákvað að enda líf sitt og tókst það.

Ég man að á sínum tíma þá ráðlagði presturinn okkur að gera frekar meira úr afmælisdeginum hans, deginum sem hann hóf lífið sitt, heldur en deginum sem því lauk. Ég skil vel rökin á bak við þau ráð því auðvitað eigum við að fagna lífinu hans.

En 23.september verður aldrei venjulegur dagur. Á þessum degi fékk ég símtal, kl. 11 á föstudagskvöldi frá Guðrúnu systur, þar sem hún sagði mér að Dagbjartur hafi reynt að hengja sig og að lífgunartilraunir hafi ekki enn borið árangur. Þau biðu öll fyrir utan húsið á meðan sjúkraflutningamenn, læknir og lögreglumenn athöfnuðu sig og hún myndi hringja í mig með nýjar fréttir. Ég man að mér fannst strax eins og ég væri að horfa á einhverja allt aðra manneskju en mig vera að taka á móti þessu símtali.

En stuttu eftir að ég skellti á var eins og allt blóðið í líkamanum mínum hafi skyndilega breyst í ískalt vatn, sem hreyfðist varla. Ég var með gesti, sem voru að gera sig klára til að fara og ég fylgdi þeim til dyra án þess að minnast á nokkuð. Þetta voru bestu vinkonur mínar en ég nefndi þetta ekki við þær né lét á neinu bera. Ég veit ekki af hverju ég gerði það. Sennilega því mér fannst þetta ekki vera að gerast í alvöru. Hugurinn var ekki búinn að meðtaka þessar fréttir.

En líkaminn virtist vera búinn að átta sig á þessu og jökulkalda vatnið var orðið að stingandi ísnálum og ég var komin með náladofa í hendur og fætur. Ég skalf úr kulda þegar ég fór á netið að bera saman malaríulyf til að nota í Asíuferðinni. Einhverra hluta vegna fannst mér þetta tilvalinn tími fyrir það verkefni. Þetta var nefnilega sko ekki að gerast. Ég spjallaði við Eygló á facebook um einhverja ómerkilega hluti. Allt í einu datt mér í hug að það væri nú kannski gott að biðja hana um að koma og bíða með mér eftir næsta símtali, þó það símtal myndi að sjálfsögðu bera með sér betri fréttir það fyrra. Annað kom ekki til greina.

Ég hugsaði líka að af því Guðrún hafði sagt að hann hafi „reynt“ að hengja sig að þá hafi það ekki tekist og hún myndi því hringja um leið og hann væri orðinn hress.  Ég þyrfti því sennilega ekkert að hafa áhyggjur. Smám saman áttaði ég mig á því að Guðrún hafði vitnað í orð lögreglunnar og sagt „ lífgunartilraunir hafa ekki enn borið árangur“……

Ég beið í 33 mínútur eftir næsta símtali en mér fannst það vera 3 klukkustundir. Ég áttaði mig auðvitað á því að því lengra sem leið – því minni væru líkurnar á að fréttirnar yrðu góðar. Þegar síminn svo loksins hringdi þá vildi ég ekki svara því ég vildi ekki fá þessa staðfestingu. Læknirinn var búinn að úrskurða litla 11 ára frænda minn látinn.

Ég vissi ekki hvort ég vildi sitja eða standa eða labba. Ég öskraði og barði í veggi og skápa. Mér fannst eins og hausinn á mér væri að springa og hjartað á mér væri að kremja lungun svo ég gat varla andað. Ég kúgaðist og kúgaðist og kastaði upp.

Þegar ég loksins róaðist, spurði Eygló hvort hún ætti ekki að keyra mig í Sandgerði. Ég skil ekki af hverju ég þáði það boð ekki heldur ákvað að keyra sjálf ásamt Sibbu systur, þrátt fyrir að vera ekki í nokkru ástandi til þess að keyra. Það var þögn í bílnum nánast alla Reykjanesbrautina. Það eina sem heyrðist í okkur öðru hvoru var „elsku kallinn“ , „elsku litli kallinn“.

Stóri bróðir minn sat þreyttur og dofinn inni í stofu þegar við komum. Ég settist við hliðina á honum og hélt í höndina á honum á meðan hann rakti fyrir okkur atburðarás kvöldsins. Það láku mörg tár á meðan ég hlustaði á það hvernig hann reyndi að koma lífi aftur í kroppinn á litla stráknum sínum. En mér fannst þetta samt ennþá ekki vera að gerast.

Ég get ekki ímyndað mér að 23.september eigi nokkurntímann eftir að verða venjulegur dagur. Þetta er dagurinn sem litli hjartagosinn okkar gerði stór mistök. Mistök sem var ekki hægt að taka til baka.

dha

| 9 athugasemdir

Einn mánuður í Osló

Þessi tími hefur einhvernveginn liðið hratt og hægt að sama tíma….ef það er þá mögulegt.

Ég hef óhjákvæmilega verið að bera þessa reynslu við þá sem ég upplifði þegar ég flutti til Perú og þetta er að mörgu leyti eins og svart og hvítt þrátt fyrir að í báðum tilvikum hafi ég farið frá lífi mínu á Íslandi og flutt til annars lands.

Í Perú var „nýjabrumið“ og menningarsjokkið svo miklu meira……eðlilega svo sem. Þar var svo mikið nýtt og fyrst um sinn var svo margt sem kom manni á óvart, bæði skemmtilega og alls alls ekki svo skemmtilega. Það tók nokkra mánuði að laga sig að taktinum þeirra, sem tókst þó aldrei alveg því það hefði tekið mörg ár.

Hér er takturinn bara svo svipaður og heima auk þess sem ég hef auðvitað heimsótt Osló áður. Þess vegna finnst mér kannski eins og ég sé búin að vera hérna miklu lengur heldur en mér fannst á sama tíma í Perú. Það er kannski það sem veldur óþolinmæðinni í tungumálinu 😉 …mér finnst eins og ég eigi að vera betri í norsku en ég er. En þegar ég minni mig á að ég sé bara búin að vera hér í mánuð þá er ég bara nokkuð sátt með norskukunnáttuna 😉

Annars gengur allt bara nokkuð vel.

Íbúðin sem ég leigi er rosa kósí en leigan er mjög há svo ég ætla að leita mér að öðru húsnæði þegar samningurinn rennur út í janúar. Ég er búin að setja myndir af henni inn á facebook.

Gengur fínt í vinnunni þó ég skilji nú ekki alltaf hvað kúnninn er að segja við mig. Þá brosi ég bara breitt og kalla í einhvern vinnufélaga minn til að hjálpa mér. Ég finn þó alveg að mér er alltaf að fara fram í norskunni……þolinmæði er dyggð! 🙂

Þarna er einmitt annar stór munur á Perúreynslunni og þessari. Í Perú skárum við okkur augljóslega úr þar sem við vorum eins og endurskinsmerki á meðal Inkanna. Hér lúkka ég ekkert öðruvísi en hinn almenni Norðmaður þannig að fólk býst við að ég tali reiprennandi norsku. Mig langar stundum að ganga með skilti á mér í vinnunni þar sem stendur: „Jeg er ikke dum – jeg er bare Islandsk“ 🙂 .

| 2 athugasemdir